Asískir Renault, Peugeot og Citroën jepplingar
13.07.2005
Bæði PSA (Peugeot og Citroën) og Renault hafa hingað til tekið lítinn þátt í jepplinga- og jeppaæðinu sem gengið hefur yfir Evrópu undanfarin ár en til að mæta eftirspurninni hafa stjórnendur beggja nú „stokkið á vagninn“ áður en hann rennur framhjá þeim. Renault gerir það í samvinnu við fyrirtækin Nissan í Japan og bílaframleiðsludeild Samsung í S. Kóreu sem eru í eigu Renault. PSA á hinn bóginn hellir sér í jepplingakapphlaupið með því að kaupa út þjónustuna hjá öðrum framleiðanda eða öllu heldur kaupa sig inn í jepplingaframleiðslu – hjá Mitsubishi.
Búið er að ganga frá samningum við Mitsubishi um að framleiða nýju kynslóðina af Outlander jepplingnum með ýmist Peugeot eða Citroën útliti. Nýi Outlanderinn verður frumsýndur í haust en PSA útgáfurnar af honum eiga að verða frumsýndir á Genfarbílasýningunni 2007 og koma á Evrópumarkað um mitt árið. Þeir munu líkast til fá heitin Peugeot 7007 og Citroën C7.
Nýi Renault jepplingurinn mun líta dagsins ljós á svipuðum tíma. Hann verður byggður á Nissan X-trail en settur saman hjá Samsung í Kóreu. Gerðarheiti hans verður að öllum líkindum Koleos.