Askan getur skaðað bílana

„Lakk á bílum og framrúður eru auðvitað í hættu ef ekið langtímum saman í gosmekkinum og sérstaklega ef ekið er greitt. Þá virkar gosaskan eins og sandblástur - lakk og jafnvel framrúðurnar verða mattar. Ennfremur geta loftsíur orðið fljótar að fyllast og jafnvel stíflast. Því er skynsamlegt fyrir bíleigendur á svæðum þar sem öskufalls er að vænta, að eiga loftsíu til vara. Ennfremur ættu ökumenn að muna eftir því að loka fyrir loftinntak miðstöðvarinnar í bílnum til að fá ekki öskusallann inn í bílinn þegar ekið er um öskufallssvæði,“ segir Ævar Friðriksson tæknistjóri FÍB við frérttavef FÍB.

Ævar segir að séu bílar ekki þeim mun meira á ferðinni í miðju öskufallsskýi, sé vart að vænta mikilla skemmda á innviðum þeirra. Sjálfsagt sé þó að hafa allan vara á og vera ekki á ferðinni við þær aðstæður að óþörfu. Askan og rykið geti að sjálfsögðu smogið víða og hugsanlega unnið skaða á pakkdósum og legum og á rafeindabúnaði og skynjurum með tímanum

Öskufall frá gosinu í Eyjafjallajökli hefur verið talsvert frá því gosið hófst en vindáttir ráða hvar það ber niður.  Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í sjónvarpsviðtali að öskuburður úr þessu gosi væri talsvert mikill og gosið að því leyti líkt Surtseyjargosinu 1964 en það gos hófst neðansjávar. Eyjafjallajökulsgosið nú hófst undir ís og þegar hann bráðnar og goskvikan kemst í snertingu við vatn verða sprengingar og hraunkvikan ummyndast í ösku sem dreifist með vindum. Af þessum sökum má reikna með því að öskufallið minnki þegar gosið hefur rutt jöklinum og vatnsflaumnum af sér. Líklega hefur gosið fram að þessu brætt  um það bil fimmtung þess íss sem var ofan á sjálfri gosöskjunni í upphafi. Gjóska er tekin að hlaðast upp í gíg sem einangrar ís frá sjálfri kvikurásinni þannig að bráðnunin er minni en hún var í upphafi. Það gæti þýtt að hlutfallslega dragi úr öskuframburðinum – gosið sé smám saman að verða aðeins „hreinna.“

Að sögn Bjarna Daníelssonar sveitarstjóra Skaftárhrepps fyrir helgi hefur talsvert öskufall verið á Kirkjubæjarklaustri og í sveitunum í kring, ekki síst í Álftaveri, undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum. Efnagreiningar sem gerðar hafa verið á gosöskunni sýna að hún er rík af flúor, brennisteini og fleiri eiturefnum og því mjög óholl, ekki síst búpeningi og fólki. Þá er brennisteinn augljóslega ekki hollur fyrir lakkið á bílum og allra síst ef það rignir ofan í gosöskulag sem sest hefur á bílana og þök húsa. Þá getur myndast brennisteinssýra sem eyðileggur lakkið. Því er hyggilegt að koma bílum í hús, eða undir yfirbreiðslu þar sem öskufalls er að vænta.

Í dag, mánudag hefur vindur snúist til sterkrar norðanáttar sem beinir gosmekkinum til suðurs frá Eyjafjallajökli. Öskufall nú er því einkum suður af gosstöðinni, en einnig má búast við einhverju öskufalli yfir Austur-Landeyjar og jafnvel Vestmannaeyjar. Veðurstofan spáir hægari vindi með deginum og síðan heiðríkju og hægri breytilegri átt á morgun, þriðjudag. Á miðvikudag er spáð norðan- og norðaustanátt og skýjuðu  með köflum. Öskufall verði þá einkum bundið við svæðið undir Eyjafjallajökli sunnanverðum og í Austur-Landeyjum og Vestmannaeyjum. Á fimmtudag og föstudag er spáð fremur austlægri átt þannig að ef sú spá gengur eftir mun aska ekki berast mjög langt frá eldstöðinni.