Ástæða sjálfsíkveikju í Peugeot 307 í Danmörku fundin

The image “http://www.fib.is/myndir/Peugeotbrennur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þessari mynd náði danskur ljósmyndari af sjálfsíkveikju í einum bílanna.
Ástæða sjálfsíkveikju í Peugeot 307 er fundin. Á heimasíðu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku segir í morgun að hana sé að rekja til skammhlaups í rafknúnu aflstýri bíla sem framleiddir voru frá 2001 til og með maí 2003.
Peugeot í Danmörku hefur í kjölfar frétta af sjálfsíkveikju í Peugeot 307 boðið 8.830 eigendum slíkra bíla í landinu upp á ókeypis skoðun og lagfæringu á bílunum. Eigendurnir fá innköllunina frá Peugeot senda í pósti í dag. Þar eru þeir beðnir að snúa sér til næsta Peugeot verkstæðis sem skoðar bílinn og skiptir út gölluðum hlutum. Peugeotverkstæðin í Danmörku verða opin alla helgina vegna þessa.
-Lagfæringar á þesum bílum er algjört forgangsmál hjá Peugeot,- segir Janne Bock upplýsingafulltrúi fyrirtækisins í Danmörku við Politiken nú í morgun. FDM, systurfélag FÍB gagnrýnir hins vegar Peugeot fyrir að bregðast seint við. Søren W. Rasmussen hjá FDM bendir á að þrír mánuðir eru síðan þessir brunar upphófust en það er ekki fyrr en gær þegar fréttir um málið birtust í fjölmiðlum að Peugeot brást loks við.
-Okkar mat er það að Peugeot hefði auðveldlega látið okkur eða aðra vita miklu fyrr og þannig komist hjá ónauðsynlegum óþægindum og vandræðagangi,- sagði hann við Politiken.
Janne Bock upplýsingafulltrúi Peugeot í Danmörku svarar þessu þannig að áður en gripið er til aðgerða verði að vera þekkt einhverskonar atvikamynstur og ekkert slíkt hafi legið fyrir fyrr en seint í maímánuði sl. Þá hafi strax verið haft samband við brunamálayfirvöld.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem PSA (Peugeot/Citroen) lendir í vanda út af brennandi bílum því að í fyrra komu upp eldar í Citroen C3 og C5 sem raktir voru til skammhlaups í rafkerfum. Søren W. Rasmussen hjá FDM segir að ekki séu um að ræða nákvæmlega sömu hluti og kveiktu í Peugeot bílunum þótt ástæðurnar séu í grunninn þær sömu – flókinn tæknibúnaður sem virkar ekki nógu vel.
Líklega enginn hér á landi
Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu nú í morgun hafa alls 195 Peugeot 307 bílar verið skráðir á Íslandi. Baldvin Erlingsson sölustjóri Peugeot á Íslandi sagði við FÍB nú fyrir stundu að þessir brunar í Peugeot 307 bílnunum hefðu nánast alveg verið staðbundnir við Danmörku. Þeir 307 bílar sem á Íslandi eru, komi langflestir úr annarri framleiðslulínu sem ætluð væri fyrir Mið og Suður-Evrópu. Í þeim bílum væru engin dæmi um bruna af því tagi sem orðið hafa í Danmörku.
Bílarnir í Danmörku og Svíþjóð kæmu úr framleiðslulínu sem sérstaklega er smíðuð fyrir N-Evrópu og væru með ýmsum annarskonar staðalbúnaði en hinir. Mjög ólíklegt væri því að hér á landi sé nokkur 307 bíll úr n-evrópsku framleiðslulínunni sem smíðaður var á tímabilinu 2001 til og með maí 2003.
Baldvin sagði að hjá Peugeot á Íslandi væri að sjálfsögðu fylgst mjög náið með þessu máli og haft yrði samband við eigendur bíla um leið og eitthvert minnsta tilefni þætti til.