Ástæðulaus eldsneytishækkun

Olís, Shell og N1 hækkuðu bensín og dísilolíuverð í gær. Öll hækkuðu þau dísilolíulítrann um 2 krónur. N1 og Olis hækkuðu bensínlítrann einnig um 2 krónur en Shell hækkaði svokallað V-Power bensín um 1,50 krónur á lítra. Eftir hækkun er algengasta verð á bensíni hjá Olís og N1 í sjálfsafgreiðslu 200,60 krónur á lítra og sama verð á dísilolíunni eða 200,60 krónur á lítra.

Hækkunina í gær er ekki hægt að réttlæta með tilvísun í heimsmarkaðsverð eða gengisþróun því að í gær lækkaði kostnaðarverð á dísilolíu um rúmlega eina krónu en bensínlítrinn hækkaði um ríflega 10 aura. Þessu til viðbótar þá lækkaði hráolía á Brent markaðnum (okkar markaðssvæði) um 1,5 dollara í gær og hefur lækkað um yfir 50 sent það sem af er deginum í dag þegar þessi frétt er skrifuð. 
Eina skýringin á hækkuninni í gær er því sú ein og aðeins ein:  Olíufélögin N1, Olís og Shell eru að bæta í álagningu sína á eldsneytinu, bæði bensíni og dísilolíu.

Hjá Shell er auglýst verð á dísillítra nú kr. 201,70 og V-Power bensínlítri kostar 201,40. 
ÓB hækkaði í morgun bensínið og dísilolíuna um 2 krónur á lítra og þar kostar dísilolía og bensín nú 200,40 krónur. Orkan og Atlantsolía hafa hins vegar ekki breytt verðumm hjá sér. Orkan er ódýrust þessa stundina og þar kostar bensín- og dísillítrinn 198,30 krónur en hjá Atlantsolíu kostar lítrinn 198,40 krónur.