Ástand vega á höfuðborgarsvæðinu sjaldan verið betra

Miðað við árstíma virðist ástand gatna á höfuðborgarsvæðinu nokkuð gott. Veðurfar hefur verið einstaklega hagstætt það sem af er vetri en hafa verður í huga að enn er febrúar og allt getur gerst ennþá. Á þessum tíma árs eftir frostakafla og svo í kjölfar þíðu og leys­ing­a hafa gjarn­an mynd­ast hol­ur og skemmd­ir verða á veg­um. Miklu minna er um þetta fram þessu og þar á veðurfarið stærstan þátt.

Að sögn Vegagerðarinnar er minna um viðgerðir á höfuðborgarsvæðinu en allan jafnan á þessum árstíma.

,,Það er mat okkar manna á þjónustustöðinni í Hafnarfirði að ástand vega á höfuðborgarsvæðinu hafi sjaldan verið betra, þó alltaf megi finna holur og djúp hjólför hér og þar. Engin alvarleg tilvik ratað inn og vissulega er sú góða tíð sem hefur verið að hjálpa eitthvað. Einnig má bæta við að starfsmenn okkar í vetrareftirlitinu sem er allan sólarhringinn hafa verið og eru mjög duglegir við að loka holum sem byrjaðar  eru að myndast áður en þær verða vandamál. Eru jafnvel farnir að loka smæstu holum og eru oftar en ekki með viðgerðarefni í bílnum þegar þeir eru á ferðinni að meta ástand vega yfir vetrarmánuðina,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, þegar FÍB innti hann eftir stöðu mála.