Ástralskir jeppakallar - feitir og íhaldssamir á fimmtugsaldri

The image “http://www.fib.is/myndir/Astraliukall.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Meðal fólks sem dags daglega keyrir á stórum fjórhjóladrifsbílum er að finna fleiri feita, íhaldssama 40-50 ára gamla karla sem hafa horn í síðu homma, en meðal þeirra sem aka venjulegum fólksbílum.  Þetta er ein af niðurstöðum stórrar viðhorfsrannsóknar meðal ástralskra ökumanna sem fréttastofa Reuters greinir frá í dag.
Samkvæmt rannsókninni er hinn dæmigerði ökumaður á stórum fjórhjóladrifnum jeppa eða pallbíl borgarbúi á aldrinum 40-50 ára með ríflega meðaltekjur og lítur á sjálfan sig sem harðjaxl og mann fyrir sinn hatt. En frá þessu er þó sú undantekning að meðal ökumanna mestu og dýrustu lúxusjeppanna er líklegra að finna hátt launaðar konur sem hugsa vel um útlit sitt og mataræði og nota lúxusjeppa sína að langmestu leyti til innanbæjaraksturs í innkaupaleiðangra. Rannsóknin umrædda náði til 24 þúsund manns.
Þrátt fyrir að bensínverð hafi hækkað mikið undanfarið hafa Ástralir lítið dregið úr kaupum á jeppum og jepplingum. Slíkir bílar eru um 18% nýrra bíla sem selst hafa á árinu. Fæstir þeirra eru nokkru sinni notaðir við aðstæður sem kalla á fjórhjóladrif.