Athugasemdum í ársskoðun bíla í Svíþjóð fer fækkandi

Tölulegar upplýsingar sem safnast upp hjá bifreiðaskoðunarstöðvum í Svíþjóð sýna batnandi ástand bílaflotans. Athugasemdum sem skoðunarmenn gera við ástand bílanna fer nefnilega fækkandi ár frá ári. Gera má ráð fyrir svipuðu hér á landi, ekki síst vegna þess að bílaflotinn hefur verið að yngjast og endurnýjun hans nú nálægt því sem telja má eðlilega.

Árið 2015 voru gerðar athugasemdir við 27,2 prósent bíla sem komu til árlegrar skoðunar í Svíþjóð og var gert að mæta aftur í endurskoðun eftir lagfæringar. Til samanburðar fengu 28,2 prósent bíla slíkar athugasemdir árið 2014 og 31,2 prósent árið 2011.

Í Svíþjóð koma árlega 3,7 miilljón bílar til skoðunar í skoðunarstöðvum landsins. Þar, eins og hér á landi, telst árleg öryggisskoðun bifreiða mikið öryggismál enda er í henni gengið úr skugga um að bílarnir séu í lagi og hæfir til að vera í umferðinni. Talsmaður sænsku umferðarstofunnar segir við bílatímaritið Vi Bilägareað tölfræðin sýni að ástand bíla í umferðinni fari batnandi sem sé gleðilegt.

10 algengstu ágallar skoðaðra bíla 2015:

1. Stefnuljós: Óvirk að hluta eða alveg
2. Aðalljós: Lágan geisla vantar
3. Stöðuhemill: Virkar lítt eða ekki
4. Spindilkúlur: Slitnar
5. Stýrisendar: Slitnir
6. Númersljós
7. Hemlar
8. Útblásturskerfi
9. Hemlarör
10. Stjórntölva