Átt hefur verið við kílómetrastöðu lengra aftur í tímann

Bílasölur- og umboð sem átt hafa í viðskiptum við Procar eða haft milligöngu um sölu bíla fyrirtækisins,hafa þegar hafist handa í því að losa sig við bílana og afhenda þá aftur forsvarsmönnum Procar. Fram kemur að bílasali sem Kveikur ræddi við segist þegar byrjaður að aka bílum frá fyrirtækinu af bílaplani sölunnar og að skrifstofu Procar.

Gögn sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur er með sýna að átt hafi verið við kílómetrastöðu í bílum fyrirtækisins frá 2011 til 2016, hið minnsta. Kveikur fékk gögnin afhent frá fyrrverandi starfsmanni bílaleigunnar en þau eiga uppruna sinn í tölvukerfi hennar.

Elsta dæmið sem er að finna í gögnunum er frá því í ágúst árið 2011, þegar akstursmæli Mözdu Tribute bifreið var spólað til baka um tæplega 20 þúsund kílómetra. Nýjasta dæmið er frá 2016, þegar akstursmæli Nissan Qashqai bifreiðar var spólað til baka um rúmlega 40 þúsund kílómetra.

Gögnin bera það einnig með sér að minnst þrír af lykilstjórnendum Procar hafi verið meðvitaðir um svikin. Persónulegur aðgangur þeirra að kerfinu var notaður til að færa inn breytta kílómetrastöðu bílanna eftir því sem fram kemur á ruv.is

Þess má geta að ferðasölufyrirtækið Guide to Iceland hefur tilkynnt að það hafi slitið samstarfi sínu við Procar. Ákvörðunin var tekin hjá fyrirtækinu í gær eftir að Samtök ferðaþjónustunnar tóku þá ákvörðun að vísa Procar úr samtökunum.