Átta prósenta samdráttur umferðar

Efnahags- og skattanefnd alþingis kom saman til fundar í morgun til að ræða tillögu Tryggva Þórs Herbertssonar um tímabundna lækkun eldsneytisskatta um tæpar 20 krónur. Jafnframt ræddi nefndin um nýja frétt frá Vegagerðinni um að gera megi ráð fyrir að umferð hafi dregist saman um allt að 8% á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Vegagerðin birti fréttina á vef sínum sl. föstudag og samkvæmt henni er samdráttur umferðar mestur á Suðurlandi en einna minnstur á höfuðborgarsvæðinu.

Visir.is ræddi við Helga Hjörvar formann efnahags- og skattanefndar í morgun. Hann sagði í frétt Vísis að nefndin hafi kallað fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu og Vegagerðinni á sinn fund til að ræða þessi mál og um hver áhrif það hefði á tekjur ríkissjóðs að lækka skattaálögur á bifreiðaeldsneytið. Ríkissjóður búi við þröngan kost og breytingar á eldsneytisálögum megi ekki kippa burt tekjuforsendum hans.