Audi að eignast Ducati

 Reuters fréttastofan hefur eftir tveimur heimildum að samningar um kaup Audi á ítölsku mótorhjólasmiðjunum Ducati séu nánast frágengnir og verði kynntir á allra næstu dögum, áður en aðalfundur Volkswagen samsteypunnar (sem Audi er hluti af) hefst í Hamborg þann 18. apríl.

Audi hefur áður leitað eftir kaupum á Ducati sem þá var í eigu bandarísks félags sem heitir Texas Pacific Group. Þetta var árið 2005. Ekki gekk þá saman með aðilum og fjárfestingafélag sem heitir Investindustrial keypti Ducati.  Það er Investindustrial sem nú vill selja og hefur að sögn annars heimildarmanna Reuters einvörðungu rætt við Audi um kaupin.

Ef af kaupunum verður þykir mörgum sem staða Audi styrkist umtalsvert í samkeppninni við BMW, sem framleiðir mótorhjól sem þykja góðir gripir. Auk þess öðlist Audi með kaupunum aðgang að mjög léttum en öflugum vélum sem heppilegar eru fyrir smábíla ekkert síður en mótorhjól.