Auglýsingarnar þóttu villandi – Toyota kærir ákvörðun Neytendastofu

 Bílaumboðið Toyota á Íslandi hefur kært til áfrýjunarnefndar í neytendamálum þá ákvörðun Neytendastofu um að banna fyrirtækinu að fullyrða í auglýsingum sínum að Hybrid-bílar framleiðandans séu ,,50% rafdrifnir“ án þess þess að frekar sé útskýrt hvað við sé átt eins og komist er að orði. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í umfjölluninni kemur fram að Hybrid-bílar, oftast kallaðir tvinnbílar, eru knúnir ýmist af rafmagni eða jarðefnaeldsneyti Ekki er hægt að hlaða bílana heldur er orka sem myndast frá mótornum notuð til að hlaða rafgeymana. Bíllinn skiptir síðan milli raforkunnar og eldsneytisins.

Í tilkynningu frá 29. júní fór Neytendastofa fram á að Toyota sannaði fullyrðingu í auglýsingum sínum um að Hybrid bifreiðar væru 50% rafdrifnar. Kom það til í kjölfar ábendinga og kvarta frá neytendum.

Með svörum Toyota voru lagðar fram rannsóknir um eldsneytisnýtingu Hybrid bifreiða Toyota. Í rannsóknunum er mælt að hve miklu leyti bifreiðarnar nota aðeins rafmagn. Niðurstöðunum er skipt þannig niður að sýnt er annars vegar hlutfall af keyrðum kílómetrum og hins vegar hlutfall af tíma sem reynsluaksturinn tók. Fullyrðing Toyota byggir á því að rannsóknirnar sýna að rúmlega 50% af þeim tíma sem bifreiðarnar eru í akstri nota þær eingöngu rafmagn.

Neytendastofa taldi hægt að skilja fullyrðingu Toyota með þessum tvennum hætti og útilokað að neytendur átti sig á því, af fullyrðingunni einni og sér, að hún eigi eingöngu við aksturstíma. Því væri villandi að birta fullyrðinguna án þeirrar skýringar að vísað væri til aksturstíma í blönduðum akstri.

Með ákvörðuninni var Toyota bönnuð frekari birting fullyrðingarinnar án þess að nánari skýringar kæmu fram.

Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að Toyota hefði að undanförnu birt lítið breyttar auglýsingar fyrir Hybrid-bíla en í þeim var fullyrt að bílarnir væru fimmtíu prósent rafdrifnir. Áður hafði Neytendastofa bannað áþekkar auglýsingar þar sem þær þóttu villandi. Í nýju auglýsingunum var hin umdeilda fullyrðing stjörnumerkt en í neðanmálsgrein á auglýsingunni útskýrt frekar hvað við væri átt.

Fram kemur að Toyota ætli að kæra ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar. Toyota segir að ákvörðunin feli í raun í sér að ríkari kröfur séu gerðar til auglýsinga fyrir Hybrid-bíla heldur en til auglýsinga sem varða bensín- dísil eða rafmagnsbíla.