Aukið umferðareftirlit

http://www.fib.is/myndir/L%F6ggub%EDll.jpg
Fyrir stundu undirrituðu og handsöluðu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fyrir hönd Umferðarstofu og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri samning um aukið umferðareftirlit á þjóðvegum landsins. Lögreglan fær nú 87 milljónir króna af þeim 385 milljónum króna sem samkvæmt umferðaröryggisáætlun skal verja til aukins umferðaröryggis árlega.
Samningurinn nú er í raun framlenging eða endurtekning samskonar samnings sem gerður var í fyrra milli sömu aðila. Þá fékk lögreglan 40 milljónir fyrir viðvikið sem stóð í þrjá mánuði, tímabilið júlí-september. Í ár mun verkefnið standa yfir tímabilið maí – september og fær lögreglan sem fyrr segir 87 milljónir króna fyrir.
Í samningi Umferðarstofu og lögreglu er kveðið á um um aukið eftirlit lögreglu á þjóðvegum landsins, ekki síst með hraðakstri, bílbeltanotkun, akstri undir áhrifum áfengis og vímuefna auk annarra hefðbundinna athugana sem falla að verkefnum lögreglu við umferðareftirlit.