Aukin álagning á eldsneyti kostar neytendur hátt í 2 milljarða króna
Olíufélögin hafa ekki skilað verðlækkun olíu á heimsmarkaði til neytenda á Íslandi. Svo sem sjá má á línuritinu sem fylgir þessari frétt þá hefur álagning olíufélaganna á bensín og dísilolíu hækkað verulega á milli ára. Uppreiknað til verðlags í dag þá er meðaltalshækkun álagningar á bensíni ríflega 5 krónur á hvern lítra sem gerir 6.60 krónur á hvern lítra með virðisaukaskatti. Þessi hækkun álagningar á bensíni kostar neytendur yfir árið 1.300 milljón krónur. Hækkun álagningar á hvern dísilolíulítra er ríflega 3 krónur eða 4.20 krónur með vsk. Aukin dísilálagning mun kosta neytendur ríflega 600 milljón krónur yfir árið.
Uppreiknuð álagning á dísilolíu í síðustu viku er ríflega 10 krónum hærri á hvern lítra samanborið við meðalálagningu fyrir allt árið 2008. Þessi hækkun álagningar nú á aðventunni í kjölfar hækkunar eldsneytisskatta er alls ekki forsvaranleg. Í liðinni viku var kostnaðarverð dísilolíu um 16.40 kr. hærra en kostnaðarverð hvers bensínlítra. Á sama tíma var útsöluverðið frá dælu á Íslandi 24.40 kr. hærra. Að teknu tilliti til virðisaukaskatts þá borga dísilbílaeigendur um 5 kr. hærri álagningu á hvern lítra nú í desember samanborið við bensínneytendur.