Aukin útgjöld á einn bíl um 30 til 60 þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB sagði í viðtali við mbl.is í dag að fyrirhugaðar hækkanir á eldsneytissköttum í nýju fjárlagafrumvarpi muni leiða til þess að skattaálögur íslenska ríkisins á eldsneyti verði með þeim hæstu í Evrópu. 

Hann bendir einnig á að eldsneytiskostnaður sé veigamikill þáttur í framfærslu heimilanna og að hækkun skatta á eldsneyti auki verðbólgu með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna og þyngri afborgunum.  Það er ljóst að  eldsneytishækkanirnar koma verst niður á þeim fjölskyldum sem hafa minni tekjur og þeim sem búa á jaðarsvæðum á landsbyggðinni og þurfa að sækja þjónustu um langan veg. 

Runólfur segir ennfremur í viðtalinu að með virðisaukaskatti nemi hækkunin á dísilolíu yfir 21 krónu á lítra og að lítrinn af bensíni muni hækka um níu krónur.

,,Ef við tökum bara venjulega notkun þá getur þetta verið aukin útgjöld um 30 til 60 þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu, sem á einn bíl". Það þarf að afla 50 til 90 þúsund króna í launatekjur til að eiga fyrir þessum hækkunum, segir Runólfur í viðtalinu við mbl.is

Viðtalið má lesa hér í heild sinni.

Einnig 
Morgunútvarpið á Rás 2: Fjárlögin og einkabíllinn
Reykjavík síðdegis - Þungt í FÍB mönnum. "Gríðarlegar skattahækkanir."