Aukning í sölu á rafmagni á hleðslustöðvum

 

Mikil aukning hefur verið í sölu á rafmagni á hleðslustöðvum ON í sumar sem gefur til kynna að fólk ferðist meira á rafbílunum en áður,  enda hefur fjölgun rafbíla verið umtalsverð.

Fram kemur í máli Beglindar Ólafsdóttir, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, var ákveðið að fara í ráðstafanir í vor þegar ljóst var að fólk myndi ferðast innanlands í meira mæli en áður. Fyrst og fremst var markmiðið að veita framúrskarandi þjónustu allan hringinn þannig að fólk á rafbílum kæmist auðveldlega leiðar sinnar. Þá voru efldir einstaka álagspunktar og settur m.a. upp auka búnaður við Staðarskála og Hvolsvöll.

Þjónustan á hleðslustöðvunum hefur gengið vel fyrir sig þrátt fyrir að eitthvað hafi verið um biðraðir á mestu álagspunktunum. Næst á dagskrá hjá ON er uppsetning nýrra og afkastameiri hraðhleðslustöðva með 150 kW hleðslugetu. Á þessum stöðvum er hægt að hlaða tvo bíla í einu og deilist þá afl stöðvarinnar á milli bílanna.

„Þessar nýju hleðslustöðvar breyta miklu fyrir okkar viðskiptavini en við eigum von á að geta sett upp í kringum 10 svona stöðvar á þessu ári. Ég vil nota tækifærið og þakka rafbílaeigendum fyrir gott samstarf og samskipti í sumar og jákvæðni í okkar garð. Við erum í miðju lærdómsferli þegar kemur að þessum hlutum og ábendingar og góð ráð frá notendum eru ómetanleg. Við hlökkum til að efla netið okkar enn frekar þannig að næsta sumar verði magnað rafbílasumar“, segir Berglind.