Aukning í umferð á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,6 prósent í nýliðnum janúarmánuði sem er heldur minni aukning en að jafnaði í janúar. Þrátt fyrir það hafa aldrei fleiri ökutæki ekið um mælisnið Vegagerðarinnar í janúar.

Umferðin, í nýliðnum mánuði, jókst um 1,6% um þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þar með var slegið nýtt met í janúarumferð en aldrei hafa fleiri ökutæki mælst í janúar fyrir umrædd mælisnið.

Mest jókst umferðin yfir mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða um 3,5% en sama aukning varð um hin sniðin eða 0,7%. Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 2,9% í janúar frá árinu 2005, þar af leiðandi er þessi aukning nú talsvert undir meðaltalsaukningu í janúar.

Umferðin var mest á föstudögum og minnst á sunnudögum. Mest jókst umferðin á mánudögum eða um 9,6% en dróst saman um 5,4% á þriðjudögum.