Autoliv þróar sjálfkeyrslutækni í bíla

Sænsk-bandaríska stórfyrirtækið Autoliv sem sérhæft er í hönnun og framleiðslu öryggisbúnaðar fyrir marga stærstu bílaframleiðendur veraldar hyggst leggja þunga áherslu á það á næstunni að búa til og þróa hingað til fullkomnasta sjálfkeyrslubúnað fyrir bíla ásamt besta hugsanlega öryggisbúnaði. Settur hefur verið saman nýr vísindamannahópur til þess að vinna þetta þróunarverkefni. Í honum eru meðal annarra Chris Urmson sem stjórnað hefur þróunarvinnu Google við sjálfkeyrandi bíla og Natasha Merat sem er prófessor við háskólann í Leeds og yfirmaður sálfræði- og tæknirannsókna þar.

Autoliv hefur alla tíð sóst eftir samstarfi við mestu hugsuði og frumkvöðla á sviðum vísinda og við háskóla og vísindastofnanir. Það var einmitt hið fyrsta hópsamstarf af ofannefndu tagi sem Autoliv stóð að árið 1984 sem fæddi af sér hliðarloftpúða eða loftpúðagardínur í bíla.

Í þessu nýskipaða vísindamannaráði Autoliv sitja sjö vísindamenn sem allir búa yfir yfirburðaþekkingu í greinum tengdum hverskonar rafeindatækni, líf- og lífeðlisfræði. Og með þau Chris Urmson og Natasha Merat innanborðs vonast Autoliv til þess að til verði stofnun eða fyrirtæki sem verði forystuafl í gerð og þróun sjálfstýri- og öryggisbúnaðar í bíla framtíðarinnar.  Jan Carlsson forstjóri og stjórnarformaður Autoliv segir við sænska fjölmiðla að enginn vafi leiki á því að sjálfkeyrandi bílar eigi eftir að breyta mjög umferð og umferðarhegðun fólks. Mikill fengur sé því að því að fá þá tvo einstaklinga sem fremstir eru í heiminum á sviði sjálfstýrikerfa fyrir róbóta og bíla og á sviðum mannlegrar hegðunar.