Avensis öruggastur

http://www.fib.is/myndir/Folksam09.jpg

Bílarnir hafa stöðugt verið að batna mörg undanfarin ár hvað varðar öryggi þeirra sem í þeim eru þegar árekstur eða annarskonar slys verður. Sérstaklega á þetta við smábílana sem tekið hafa hvað mestum framförum í þessu efni. En þegar árekstur verður er þyngd og stærðarmunur stór þáttur. Þegar fimm stjörnu smábíll lendi í árekstri við þriggja stjörnu fólksbíl af stærstu gerð þá er líklegt að fólkinu í stóra og þunga bílnum sé betur borgið en fólkinu í smábílnum þótt góður sé.

Sænska tryggingafélagið Folksam rannsakar rækilega raunveruleg bílslys og afleiðingar þeirra og gefur út skýrslu um niðurstöðurnar annað hvert ár. Nú er nýkomin út slík skýrsla, í 12. sinn. Hún er um rannsókn á 105 þúsund raunverulegum umferðarslysum og niðurstaðan er sú að öruggasti bíllinn í Svíþjóð annað skiptið í röð, er Toyota Avensis.

Toyota Avensis árgerð 2008 er samkvæmt rannsókninni 38% öruggari en meðalbíllinn. Það eru semsé 38 prósent minni líkur á að slasast í honum en meðalbílnum. Þeir sem á eftir Avensis koma eru Volvo V70/S60/S80 árg. 98-06, Saab 9-5 98-, Toyota Camry 01-03, Mitsubishi Galant 97-03 og Mazda 626 98-02. Þetta eru öruggustu bílarnir í Svíþjóð. Enginn þeirra er undir 30% öruggari en meðaltalsbíllinn í rannsókninni.

Meðal þeirra bíla sem hættulegastir eru í slysum eru Citroën AX 87-93, Citroen BX 83-93 og Renault 5 85-90. Allt eru þetta gamlar gerðir. Nýrri gerðirnar eru umtalsvert öruggari. En meðal bíla frá tíunda áratuginum sem koma illa út úr rannsókninni má nefna Hyundai Elantra 91-95, Honda Civic 92-96 og Fiat Punto 94-99.

Bæði árekstrarpróf og raunveruleg slys sýna að bílar hafa stöðugt verið að batna. Með því að bera saman niðurstöður árekstrarprófa EuroNCAP og rannsókn Folksam sýnir það sig að hætta á að slasast í fimm stjörnu bílum er um 30% minni en í tveggja stjörnu bílum. Það sýnir sig einnig að lífshætta í fimm stjörnu bílum er um það bil 70% minni heldur en í tveggja stjörnu bílum. Rannsókn Folksam staðfestir það að bílar sem komið hafa vel út í árekstursprófum eru miklu öruggari þegar slys eiga sér stað.

Anders Kullgren er slysarannsóknastjóri Folksam. Hann segir að meginniðurstaða rannsóknarinnar sé sú að nýrri gerðir bíla  verndi líf fólks úti í umferðinni. Ef fólk festi einvörðungu kaup á bílum í hæsta öryggisflokki, þ.e. fimm stjörnu bílum, myndi látnum og alvarlega slösuðum í umferðinni fækka um 30 prósent.
Undanfarinn áratug hafi fólk trúað því að þróunin í átt til öruggari bíla væri að nálgast endimörk og að brátt yrði ekki lengra komist í þeim efnum. Því myndi smám saman hægjast á þróuninni. Þessi kenning hafi reynst röng. Þróunin í átt til stöðugt öruggari bíla sé enn á fullri ferð.

Folksam hvetur fólk til að kaupa öruggari bíla og til að undirstrika það gefur félagið allt að 10 prósenta afslátt af tryggingaiðgjöldum af Toyota Avensis árg. 03-08. Afsláttinn fá bæði nýir og eldri vátryggjendur. Upphæð afsláttarins í krónum talið ræðst síðan m.a. af búsetusvæði, aldri og árlegum akstri.

Sjá nánar á heimasíðu Folksam.