Bæklingur um utandyrakynlíf

The image “http://www.fib.is/myndir/Nudists.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Nyhedsavisen í Danmörku greindi frá því í gær að í sönnum anda frjálslyndis og víðsýni ætli nú samtökin Danmarks Naturfredningsforening að gefa út bækling með lýsingum á staðsetningu og staðháttum þar sem heppilegt er að gera hitt utandyra og færa þannig nánar og eðlislægar samskiptaathafnir úr svefnherbergjunum út í náttúruna.

Fjölmiðlafulltrúi samtakanna heitir Lene Midtgaard. Hún segir við Jyllands Posten í dag að samtökin vilji með útgáfunni undirstrika það að hægt sé að njóta náttúrunnar á marga vegu. Bæklingurinn muni ekki fjalla í smáatriðum um sjálfan verknaðinn sem staðirnir eru svo heppilegir til, heldur sé hann gerður fólki til leiðbeiningar um hvar sé hægt að eiga góðar og persónulegar stundir úti í náttúru landsins. Bæklingurinn sé ennþá í vinnslu og sé reynt útivistarkynlífsfólk velkomið til að benda á heppilega staði í danskri náttúru sem það telur að eigi heima í bæklingnum.

Bæklingurinn á að verða tilbúinn til prentunar að ári en aðspurð um góða staði til útikynlífs nefnir Lene Midtgaard t.d. Døndalen á Borgundarhólmi og Ermelunden í Gentofte. Þá séu ýmis strand- og skógasvæði verulega góð til þessara þarfa. „Þetta snýst um það að finna rólega staði og eiga þar smá-gleðistundir,“ segir Lene Midtgaard.