Bakmótorinn á bak og burt

Þeir bílar sem einna langlífastir hafa verið í sögu bílsins hafa verið að týna tölunni. Ekki er langt síðan við sögðum frá því hér á fréttavefnum að árið í ár væri síðasta framleiðsluár gömlu Lödunnar sem framleidd hefur verið frá 1970. Og nú er komið að gamla VW rúgbrauðinu með vélinni í skottinu. Næsta ár – 2013 – verður síðasta framleiðsluár þess.  Þar með má segja að tímabili bíla með vélinni í skottinu ljúki að mestu.

Fyrsta gerð VW rúgbrauðsins nefndist T1. Bíllinn var byggður á undirvagni bjöllunnar og var nánast sami bíll og bjallan að yfirbyggingunni undanskilinni. Næsta gerð sem fyrst kom fram í Evrópu í ágúst 1967 nefndist T2 og var nokkuð öðruvísi. Ýmsir hlutar T2 voru vissulega sameiginlegir VW bjöllunni en í heildina var hönnun og bygging bílsins miklu meir miðuð við þær þarfir sem bílnum var ætlað að uppfylla. Jafnframt voru aksturseiginleikar hans stórlega betri en T1 gerðarinnar. Hinn best sýnilegi munur þessara tveggja gerða var sá að framrúðan var tvískipt í T1 gerðinni en heil í T2. T2 varð mjög vinsæll sem sendibíll eða sem níu manna smárúta. Síðasta gerðin með vélinni aftur í skotti varð svo T3. Gerðirnar sem á eftir komu hafa síðan verið með vélinni fram í og framhjóladrifi.

En það er semsé T2 gerðin sem langlífust hefur orðið því að þegar T3 leysti hann af hólmi 1976 hélt framleiðslan áfram í Brasilíu og stendur enn yfir. Breytingar á bílnum hafa síðan litlar orðið aðrar en þær að loftkældu 1500-2000 cc bensínvélarnar voru lagðar á hilluna árið 2005 og vatnskældar bensín- og dísilvélar komu í þeirra stað.

Dálítið hefur verið um það að T3 hafi verið fluttur út frá Brasilíu til Evrópu síðustu árin. M.a. hafa fyrirtæki í Bretlandi, Þýskalandi og Hollandi keypt T3 bíla og innréttað sem húsbíla. Eitt þessara fyrirtækja heitir Danbury Motorcaravans og kosta bílarnir frá 25 þúsund pundum og fást bæði með vinstri- og hægrihandarstýri.