Banaslysum í Svíþjóð fækkar

Banaslysum í umferðinni í Svíþjóð fækkar til muna. Samkvæmt tölum frá sænsku samgöngustofunni voru banaslys helmingi færri í október en í sama mánuði í fyrra. 11 manns létu lífið í umferðinni í október og hafa ekki verið færri um árabil í þessum mánuði.

Það sem af er þessu ári hafa 155 manns látið lífið í umferðinni í Svíþjóð og stefnir í töluverða lækkun á milli ára. Allt árið 2019 létust 223.

Umferðin almennt í Evrópu hefur dregist mikið saman í kórónuveirufaraldrinum og það er líkleg ástæða fyrir fækkun banaslysa og alvarlegra slysa víðast hvar. Það sem af er þessu ári hafa sex manns látist í umferðarslysum hér á landi.