Bandaríkjamenn byrja að horfa til dísilbíla

http://www.fib.is/myndir/OldsmobildDisil.jpg

Með síhækkandi eldsneytisverði hefur sala á stórum jeppum og pallbílum í Bandaríkjunum kolfallið en nú horfa bæði framleiðendur og bílakaupendur í vaxandi mæli til dísilbíla. Í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs fyrir 25 árum komu dísilknúnir bílar fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum en gerðu stuttan stans af ýmsum ástæðum. Þetta kemur fram í frétt CNN í morgun.

Bandarísku dísilvélarnar þóttu hávaðasamar, viðbragðsseinar, slappar, illa þefjandi og sorglega endingarlitlar – í það minnsta sumar hverjar. Þá skipti það einnig nokkru fyrir venjulegt fjölskyldufólk að fólksbíladísilolía var og er enn óvíða fáanleg á venjulegum bensínstöðvum heldur verður að gera sér ferð á sérstakar trukkastöðvar (Truck Stop) við helstu milliríkjavegina. Loks hefur mengunarlöggjöf í mörgum ríkjanna tekið mið af þessum gamla tíma en ekki af nýjustu háþrýstidísilvélum með samrásarinnsprautun og sem einungis ganga á mjög hreinni dísilolíu sem fram undir þetta hefur varla verið fáanleg í Bandaríkjunum.

Snemma á níunda áratugi síðustu aldar var um 80% þeirra Mercedes Benz fólksbíla sem seldust í Bandaríkjunum dísilknúnir og Oldsmobile og Cadillac bílar fengust með dísilvélum. En síðan lækkaði eldsneytisverðið aftur og fólk sneri sér því aftur að bensínbílum og þróun fólksbíladísilvéla í Bandaríkjunum stöðvaðist á ný en hélt stöðugt áfram í Evrópu og náði nýjum hæðum með hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu og olíuafurðum. Í dag er helmingur nýrra bíla í Evrópu með dísilvélum en einungis 3,5% í Bandaríkjunum, flestir pallbílar.

Í Evrópu hefur þróunin orðið sú að vart er lengur hægt að greina það á vélarhljóðinu hvort um er að ræða dísil- eða bensínfólksbíl. En í akstri kemur munurinn í ljós sem oftar en ekki er sá að dísilvélin vinnur betur en eyðir miklu minna en bensínvélin í samskonar bíl. „Margir Bandaríkjamenn sem tyllt hafa niður fæti í Evrópu hafa ferðast í dísilbílum og kynnst eiginleikum þeirra af eigin raun og því hversu mikill árangur hefur náðst í þróun disilvéla og með dísilolíu með lágu brennisteinsinnihaldi og hversu hreinn bruni þessara véla er,“ segir Charlie Vogelheim, framkvæmdastjóri bílarannsókna hjá J.D. Power and Associates við CNN.