Bandarískar hljóðkröfur til rafbíla

Talsvert hefur verið pælt í því að setja hljóðgjafa í rafbíla til að gangandi vegfarendur geti betur áttað sig á þeim í umferðinni. Í Bandaríkjunum hefur málið verið rætt fram og til baka í fjölda ára og loksins nú alveg nýlega tóku gildi reglur um viðvörunarhljóð frá rafbílum í hægum akstri.

Ástæðan fyrir þessum reglum er vitanlega sú að fótgangandi geta miklu síðar áttað sig á rafbílum í kring um sig vegna þess að lítið sem ekkert heyrist í þeim og því minna sem þeim er ekið hægar. Þá hafa rannsóknir staðfest að rafbílar eru af þessum ástæðum 19 prósent líklegri til að lenda í árekstrum við fótgangandi en aðrir bílar. Það eru ekki síst ýmis samtök blindra og sjónskertra sem lengi hafa krafist viðvörunarhljóðs frá mjög hljóðlátum farartækjum. Upphaflega stóð til að lögfesta reglur um þetta árið 2014 í Bandaríkjunum en það tafðist þar til nú nýlega vegna þess að opinberir aílar gáti ekki komið sér saman um hvernig hljóðin ættu að vera og við hvaða hraðamörk þau ættu að miðast.

En nú hefur það loksins tekist og héðan í frá skulu viðvörunarhljóð berast frá rafbílunum í akstri á allt að 30 km hraða. Ekkert segir um hverskonar hljóð skulu heyrast frá bílunum heldur aðeins hver hljóðstyrkurinn skuli vera. Samtök bílaframleiðenda eru gagnrýnin á nýju reglurnar og hafa sagt að auðvitað hljóti þeir að eiga að ráða því hverskonar hljóð berist frá bílunum. Hljóðin þurfi að vera auðheyranleg og jafnframt áheyrileg og falli áheyrendum utan við bílana vel í geð og að þau pirri heldur ekki þá sem aka bílunum.