Bannar Þýskaland nýskráningar bensín- og dísilbíla 2030?

Þýska tímaritið Der Spiegel greinir frá því að samstarfsráð þýsku sambandsríkjanna hafi nýlega samþykkt að frá og með árinu 2030 verði bannað að nýskrá bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti (dísil- og bensínbíla). Ráðið skorar ennfremur á önnur ríki Evrópusambandsins að gjöra slíkt hið sama.

Gangi þetta eftir verða brunahreyfilsbílar sífellt sjaldséðari í umferðinni eftir því sem árin líða og að mestu horfnir 10-15 árum eftir að nýskráningarbannið tók gildi.

Græningjar í Þýskalandi fagna samþykktinni en eru jafnframt undrandi á hversu stuttur fyrirvarinn er að sögn Spiegel. Í samræmi við niðurstöður loftslagsráðstefnunnar í París stefna þýsk stjórnvöld að því að draga úr CO2 losun um 95 prósent til ársins 2050. Einungis lítill hluti núverandi heildarlosunar í þessu mikla iðnríki er frá bílum þannig að mikið fleira þarf að koma til eigi 95 prósenta markið að nást 2050.

Þær áætlanir sem birtar hafa verið um minni losun frá bílum og umferð í Þýskalandi miðast að miklu leyti við það að stækka hlut rafmagnsbíla í bílaflota Þjóðverja með margskonar ívilnunum og styrkjum til fólks sem skiptir út brunahreyfilsbílum sínum fyrir rafbíla. Árangurinn hefur hins vegar verið heldur rýr fram að þessu.