Bara með dísilvél

Það er ekki sérlega mörg ár síðan sumar fólksbílategundir og gerðir fengust alls ekki með dísilvélum. Nú er öldin önnur. Eftirspurn eftir dísilknúnum fólksbílum í Evrópu hefur vaxið svo mjög að vel yfir helmingur nýrra bíla er með dísilvélum. Í Danmörku er engin eftirspurn eftir bensínknúnum fólksbílum í stærri kantinum.

Því hefur innflytjandi Renault bíla í Danmörku tekið af skarið og tilkynnt að innflutningi á Laguna bílum með bensínvélum hafi verið hætt. Nýjasta kynslóð bílsins verður framvegis einungis fáanleg með dísilvélum og best búna gerðin er með tveggja lítra 175 hestafla dísilvél. Staðalvélin er 1,5 lítra 110 hestafla, þar næst kemur tveggja lítra 150 hestafla vél og svo loks sú 175 hestafla.