Barack Obama vill draga úr olíunotkun

http://www.fib.is/myndir/Barack-obama.jpg
Öldungadeildarþingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Barack Obama hefur lagt til að verðlauna hvern þann sem fær sér sparneytinn bíl með sjö þúsund dollurum. Hann segist ennfremur stefna að því að tengiltvinnbílar á bandarískum vegum verði orðnir minnst ein milljón fyrir árið 2015.

Barack Obama hefur það sem af er kosningabaráttunnar um forsetastólinn talað til bandaríska bíliðnaðarins nánast með tveimur hrútshornum, þvert á það sem John McCain keppinautur hans hefur gert. Obama hefur gagnrýnt iðnaðinn fyrir að bregðast seint og illa við kröfum um sparneytnari og minna mengandi bíla. Sýnt þykir því að verði hann næsti forseti Bandaríkjanna muni bílaiðnaðurinn sjá sína sæng uppreidda og neyðast til að taka sig rækilega á og það snarlega.

Barack Obama vill jafnframt taka upp hvatagreiðslurnar í þeim tilgangi að draga sem mest úr eldsneytisbruna og stuðla þannig að hreinna umhverfi og andrúmslofti. En hvað svo skal teljast vera nógu sparneytið farartæki til að falla undir þennan umhverfisafslátt skilgreindi Obama hins vegar ekki.

Sú ætlan Barack Obama að koma  milljón tengiltvinnbílum á vegina fyrir árið 2015 þykir talsmönnum bandaríska bílaiðnaðarins nokkuð glannaleg. Iðnaðurinn sé alls ekki tilbúinn til að byrja að framleiða tengiltvinnbíla og sá tilraunabíll sem lengst sé kominn í þróuninni, Chevrolet Volt, komist ekki á framleiðslustig fyrr en 2010.

Tegiltvinnbílarnir eru settir í hleðslu með því að stinga þeim í samband við heimilisinnstungu á kvöldin Fullhlaðnir dugar svo orkan á geymunum til að nota bílinn til alls daglegs innanbæjaraksturs án þess að bensín- eða dísil-ljósavél bílsins þurfi nokkru sinni að fara í gang.