Batnandi umferðarmenning

Umferðarmenningin virðist fara batnandi. Þeir sem mikið eru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni þess telja sig finna þetta og slysatölur lögreglunnar virðast staðfesta þetta. Eftirfarandi frétt um málið má lesa á vef lögreglunnar en í henni segir:

„Samkvæmt tölum lögreglu hefur slysum í umferð, þar sem meiðsl verða á vegfarendum, fækkað síðustu ár. Þannig hefur slysum fækkað á höfuðborgarsvæðinu um 10% fyrstu ellefu mánuði ársins 2012 borið saman við sama tímabil 2011 og um 39% frá árinu 2008.

Þegar skoðaðar eru tölur Umferðarstofu frá 2008 til 2011 er sýna orsök umferðarslysa, má sjá að slysum er tengjast áhættuhegðun í umferð fer fækkandi. Þar má nefna slys sem rakin eru til  aksturs á móti rauðu ljósi, brots gegn stöðvunarskyldu, brots gegn biðskyldu, ölvunaraksturs, fíkniefnaaksturs, of stutts bils milli bifreiða og ógætilegs framúraksturs.

Þá er tölfræðilegur samanburður við Norðurlöndin síðustu ár síður en svo óhagstæður fyrir umferðarmenningu hér á landi. Svo virðist því sem tillitssemi ökumanna í umferð sé að aukast, þeir aki gætilegar en áður og af meiri árvekni og ábyrgð.

Það er því mat lögreglu að umferðarmenning hér á landi hafi farið batnandi á síðustu árum og að við höfum alla burði til að ná enn betri árangri í fækkun slysa á þeim næstu.“
Sjá nánar hér.