BBC sýnir slysið þegar Vampýran valt

http://www.fib.is/myndir/Richard%20Hammond%20umvafinn%20ungflj%F3%F0um.JPG
Richard Hammond við Jökulsárlón umvafinn breskum skólastúlkum sem hópuðust utan um hann þegar þær áttuðu sig á hver hann var.

Breska sjónvarpið BBC hefur söðlað um frá fyrri ákvörðunum um að sýna ekki frá slysinu á Elvington flugvellinum við York í Bretlandi þegar Richard Hammond, einn þremenninganna í TopGear, velti þotubílnum Vampýrunni og var hársbreidd frá því að týna lífi. Nú hefur verið ákveðið að klippa saman heimildamynd frá undirbúningi hinnar afdrifaríku ökuferðar og endalokum og sýna myndina í sjónvarpi fljótlega eftir næstu áramót.

Slysið varð til þess að alvarlega var hugsað um að hætta framleiðslu TopGear en af því verður þó ekki, enda er Richard Hammond, sem er á góðum batavegi, sagður hafa tekið þeirri hugmynd afar illa. Undirbúningur og tökur á nýrri TopGear þáttaröð eru þegar hafnar. Jeremy Clarkson er um þessar mundir að reynsluaka nýjum Lotus sportbíl og samkvæmt frétt Sky News hefjast sýningar á nýju þáttaröðinni þegar Richard Hammond kemur aftur til starfa að um það bil sex mánuðum liðnum.

Hraðinn á þotubílnum Vampýrunni var um 480 km á klst. þegar hann skyndilega beygði út af flugbrautinni og valt fleiri veltur. Richard Hammond var reyrður í öryggisbelti og utan um hann var mjög sterkt veltibúr þannig að hann beinbrotnaði hvergi en hlaut slæmt mar á heila í atganginum og talsverðar heilablæðingar af þeim sökum og var í alvarlegri lífshættu um tíma. Strax eftir slysið var Richard fluttur á sjúkrahús í Leeds en hann dvelur nú á spítala nærri heimili sínu í Cheltenham.
http://www.fib.is/myndir/Hammond-%E1-b%F6rum.jpg
Hér er verið að færa Richard Hammond af sjúkrahúsinu í Leeds yfir í þyrlu sem flutti hann á endurhæfingarspítala í grenn við heimili hans í Cheltenham.