Bensín og dísilolía hækka í verði

Esso tilkynnti um eldsneytishækkun í gær.  Bensínið var hækkað um 2,5 krónur á lítra og dísilolían um 1,5 krónur.  Shell og Olís fylgdu Esso eftir og hækkuðu einnig verðin hjá sér.  Sjálfsafgreiðslufyrirtæki Esso og Olís, Egó og ÓB hafa einnig hækkað verðin á sínum stöðvum.  Orkan dótturfyrirtæki Shell hefur ekki hækkað sín verð og sama á við um Atlantsolíu þegar þessi frétt er skrifuð um kl. 14:30. 

Algengt verð í sjálfsafgreiðslu hjá Esso, Olís og Shell er núna 126,90 krónur á bensínlítra og 121,20 krónur fyrir dísillítra, þjónustuverðið er 5 krónum dýrara.  Hjá ÓB og Egó er bensínið komið í 125,30 krónur á lítra og dísilolían í 119,60 krónur.  Orkan selur bensínið ennþá á 122,80 krónur og dísilinn á 118,20.  Hjá Atlantsolíu kostar bensínlítrinn 122,90 krónur en dísillítrinn er á 118,10 krónur. 

Orkan er með ódýrasta bensínið en Atlantsolía er með ódýrustu dísilolíuna.  Verðmunurinn á dýrasta og ódýrasta bensíndropanum er 9,10 krónur á lítra og munurinn á dísildropanum er 8,10 krónur á lítra.