Bensín og dísilolía lækkar vegna Atlantsolíu

Verðhækkun olíufélaganna Esso, Olís og Shell frá því um mánaðarmótin síðustu var dregin til baka fyrir helgi. Ljóst er að Atlantsolía, litla samkeppnisfyrirtækið, heldur niðri eldsneytisverði til neytenda.

Atlantsolía er að skila til almennings gríðarlegum fjármunum með verðstefnu sinni. Gömlu samráðsfyrirtækin eru greinilega í miklum vandræðum þar sem þau treysta sér ekki til að bjóða sínum viðskiptavinum eldsneytisverð út frá eigin verðútreikningum. Verðbreytingarnar frá síðustu mánaðarmótum gengu til baka á hálfri viku. Samráðsfyrirtækin óttast litlu Atlantsolíu sem heldur úti 12 af um 500 bensín- og olíubyssum á markaðnum. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi!

Við neytendur getum haft áhrif á markaðinn með því að vera meðvituð um vöruverð og stuðla að samkeppni með viðskiptum okkar.