Bensínið hækkar enn - nú um 4 krónur


Stóru olíufélögin hækkuðu verð bensínlítrans fyrr í dag um fjórar krónur. Í frétt á heimasíðu Olíufélagsins Esso segir að hækkunin sé gerð í kjölfar fellibylsins Katrínar, sem gengið hefur yfir Bandaríkin. Vegna hans hafi orðið mikil hækkun á heimsmarkaðsverði eldsneytis þegar loka þurfti nokkrum olíuhreinsunarstöðvum í kjölfar náttúruhamfaranna. Lokunin hafi komið fram með miklum þunga í verði á bensíni og það hækkað í stórum skrefum. Hækkanir á öðrum eldsneytistegundum eins og t.d. dísilolíu og annarri gasolíu hafi verið minni en nánast engin á svartolíu. Þetta endurspegli sterklega afstöðu framboðs og eftirspurnar á stærsta olíumarkaði heims, sem er í Bandaríkjunum.
Á heimasíðu Esso segir að þörf fyrir hækkun á eldsneytisverði sé mun meiri en fjögurra króna hækkunin í morgun, eða kr. 8,50 á lítrann og 2,80 á dísilolíu og aðrar gasolíutegundir. Félagið hafi ekki hækkað verðið meir nú í þeirri von að heimsmarkaðsverðið taki fljótlega að lækka aftur. Ljóst megi þó vera að enn ríki mikil óvissa vegna hamfaranna við Mexíkóflóann og um hver verðþróunin verði á næstunni.
Bensínlítrinn kostar nú með fullri þjónustu kr. 122,70 og dísilolíulítrinn 119,70. Almennt sjálfsafgreiðsluverð er á bensíninu kr. 117,70 og á dísilolíunni kr. 114,70