Bensínstöð Costco selur lítrann á 169,9 krónur

Costco hóf í dag sölu á bensíni en verslunin í Kauptúni verður opnuð á þriðjudaginn kemur. Lítrinn hjá Costco kostar 169,9 krónur sem er verulega ódýrara en hjá íslensku olíufélögunum. Lítrinn af díselolíu er á 164,9 krónur.

Lítrinn af bensíni hefur ekki kostað undir 170 krónur á lítrann síðan árið 2009. Vert er að hafa í huga að aðildarkort Costco er nauðsynlegt til þess að versla við bensínstöðina.

Samkvæmt síðunni bensinverd.is er lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af bensíni ódýrastur hjá sérstökum X-stöðvum Orkunnar eða í 185,7 krónum, sem er 15,8 krónum hærra en hjá Costco. Hjá öðrum stöðum Orkunnar kostar lítrinn 197,8, 197,9 hjá Atlantsolíu og ÓB, 199,4 hjá Skeljungi og 199,9 hjá N1 og Olís.

Fögnum þessum tíðindum
,,Við hjá FÍB fögnum þessum tíðindum en í sjálfum sér er þetta áfellisdómur yfir fákeppnismarkaðnum sem fyrir er. Þetta staðfestir það sem FÍB hefur haldið á lofti árum saman og samkeppnisyfirvöld hafa staðfest einnig, að íslenskir neytendur hafa þurft að þola óeðlilega háa álagningu. Við vonum bara að markaðurinn bregðist við með þeim hætti að neytendur notið góðs af,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.