Bensínverðið tvöfaldast 2012!

-Heimsmarkaðsverðið á bílaeldsneyti mun vaða upp á næstunni og það mun gerast fyrr en flesta grunar. Strax árið 2012 verður verðið orðið hærra en það hefur nokkru sinni verið áður og helmingi hærra en það er nú, segir John Hofmeister fyrrverandi forstjóri Shell Oil við Platts Energy Week.

Margir minnast sjálfsagt enn sumarsins 2008 þegar eldsneytisverðið hækkaði og hækkaði. Fatið af hráolíunni rauf 100 dollara múrinn og menn voru farnir að spá að fatið færi í 200 dollara fljótlega. Flestallir olíuframleiðendur juku framleiðsluna til að koma til móts við eftirspurnina sem bara jókst og var alltaf meiri en framboðið, hversu mikið sem framleiðslan jókst.

En þá skall á efnahagskreppa síðla hausts 2008. Það hægði mjög á hagvextinum og á hjólum atvinnulífsins eins og það er stundum kallað og um leið dró mjög úr eftirspurn eftir olíunni og verðið á henni snarféll. Í Bandaríkjunum eru mjög lágir skattar á bensín og olíu gagnstætt Evrópu þar sem háir skattar „skyggja“ á raunverulegt eldsneytisverð. Í Bandaríkjunum varð verðþróunin því mjög skýr og auðsæ. Þegar bensínverðið var sem hæst um hásumarið 2008 kostaði gallonið (tæpir fjórir lítrar) rúma fjóra dollara sem er nálægt 117 krónur lítrinn m.v. núverandi gengi dollars. Það þætti nú kannski ekki mikið hér á landi þar sem lítrinn er kominn vel yfir tvö hundruð kallinn og þar af eru skattar góður helmingur og verða enn hærri eftir áramótin.

117 kr. bensínlítrinn þótti Bandaríkjamönnum alveg ofboðslegt verð. Þeir höfðu alist upp við það að fá lítrann á nálægt 30 krónur. En fyrir um áratug tók verðið að hækka í Bandaríkjunum og hefur síðasta áratuginn verið í kring um 60 krónur þar til það fór í hæstu hæðir eða í um 117 kr lítrinn haustið 2008. En þegar fjármálakreppan skall á af fullum þunga tók bensínverð að lækka á ný og veturinn 2008-2009 fór það niður í um 47 krónur lítrinn en hefur verið að hækka jafnt og þétt síðan. Nú kostar lítrinn um 88 krónur.

Þegar verðið var allra hæst haustið 2008 snarféll sala á uppáhaldsbílum Bandaríkjamanna – stórum pallbílum og jeppum með átta strokka bensínvélar. Bandaríkjamenn eiga margir langa ökuleið til vinnu og rándýrt bensín skiptir því efnahag þeirra miklu. Algeng brúttólaun almennra launþega eru í kring um 700 dollarar á viku eða 82 þús. kr. en láglaunafólk er þó oft með mun lægri laun. Algengur vikulegur eldsneytiskostnaður til að komast á pallbílnum í og úr vinnu er 100 dollarar á viku eða 11.700 krónur þannig að hver dollari í eldsneytisverðinu á hvert gallon til eða frá skiptir fjárhag fjölskyldnanna miklu máli.

Það kom á óvart þegar bensínverðið rauk upp haustið 2008 hversu bandaríski bílaiðnaðurinn var algerlega óviðbúinn. Sala á jeppum og pallbílum hrapaði gersamlega og sala á minni og sparneytnari bílum frá Asíu stórjókst vegna þess að hinn þjóðlegi bílaiðnaður átti enga slíka bíla til. Í þeirri bensínhækkanabylgju sem John Hofmeister spáir nú er bandaríski bílaiðnaðurinn miklu betur undir það búinn að mæta henni með sparneytnum bílum.

Útlitið í eldsneytisverðlagsmálunum er sannarlega ekki gott. John Hofmeister segir við Platts að benínlítrinn í Bandaríkjunum verði strax árið 2012 kominn, eftir rúmt ár, í 146 krónur og þá verði skorts þegar farið að gæta. „Ef við höldum áfram á sömu braut og við erum á, verður alvarlegur og viðvarandi orkuskortur orðinn daglegt brauð innan áratugs,“ segir hann. Hann gagnrýnir hversu stjórnmálamenn virðist sofandi á verðinum og ófærir um að taka viturlegar ákvarðanir í orkumálum, sem væri þeim nær í stað þess að hrökkva fyrst í gírinn þegar allt er í óefni komið.