Bentley í Dakarrallýið með jeppa?

Allar líkur eru á því að Bentley verði þátttakandi í næsta Dakar ralli með sérbyggða jeppa sem verða einskonar rallútgáfa af hugmyndajeppanum Exp 9F enda þótt sá bíll sé enn á hugmyndastigi og ekki kominn í fjöldaframleiðslu.

Þetta er ekki ósvipað því sem Volkswagen gerði á sínum tíma með Touareg en þeir bílar hafa verið sigursælir í Dakar rallinu og sigruðu árin 2009, 2010 og 2011. Þar áður voru það Mitsubishi Pajero Evo bílar sem áttu efstu sætin um árabil. En svo hætti Mitsubishi þátttöku í Dakar rallinu og nú hefur Volkswagen líka dregið sig út úr því þannig að að kannski skapast þar með rými fyrir Bentley (sem reyndar er í eigu Volkswagen).

Dakar rallið er talin erfiðasta rallkeppni veraldar. Akstursleiðin er rúmir 10 þúsund kílómetrar um eyðimerkur, fjöll og firnindi. Næsta Dakar-rall hefst á næstkomandi nýjársdegi, þann 1. janúar 2013. Þótt keppnin beri ennþá nafn hinnar afrísku borgar Dakar í Senegal er Afríka ekki lengur vettvangur hennar, heldur S. Ameríka.

Bentley Exp 9F var sýndur á síðustu Genfarbílasýningu og vakti talsverða athygli en hrifningin yfir útlitinu var mismikil. Nokkrum vikum síðar kom frétt frá Bentley um að útlitinu yrði breytt áður en fjöldaframleiðsla hæfist. En henær sem hún hefst, þá er nokkuð víst að innviðir nýja Bentley jeppans verða aðrir en í Dakar-keppnisbílunum. Þeir verða nefnilega Volkswagen Touareg rallbílarnir úr Dakar rallinu sem verða uppfærðir og fengið Bentley-legt útlit.