Bernie Eccelstone losar sig við bílana sína

http://www.fib.is/myndir/BernieEcclestone.jpg
Bernie Eccelstone.

Eitt besta bílasafn heims í einkaeigu er til sölu á uppboði í London þann 31. október nk. Safnið er í eigu Formúlu 1 foringjans, Bernie Eccelstone. Meðal safngripa eru margir eðalsportbílar, þar á meðal Mercedes Benz sem metinn er á um 450 milljónir ísl. kr.
Bílarnir sem Eccelstone ætlar að losa sig við eru af ýmsu tagi. Þeir eru alls um 50 og meðal tegunda eru sígildir Ferrari, Porsche og Mercedes Benz sem ýmsar frægustu stjörnur bílasportsins áttu á sínum tíma.

Einn athyglisverðasti þeirra bíla sem á uppboðinu verða er Mercedes Benz 540 K Special Roadster frá 1937. Framleiðslunúmerið er 225 en 540 K bílarnir voru byggðir fyrir hina voldugustu, ríkustu og frægustu í Evrópu millistríðsáranna. Í uppboðsskrá er þessum bíl lýst sem einstökum. Hann sé í fyrsta flokks standi og í sérflokki hvað varðar ástand, tækni og annan búnað. Vélin er átta strokka 5,4 lítra línumótor með forþjöppu. Verðmæti bílsins er talið vera um 450 milljónir ísl. kr.

Af öðrum merkum gripum má nefna Mercedes Benz 300 SL sportbíl með vængjahurðum sem opnast niðri við sílsinn á lömum sem eru uppi í þaki bílsins. Talið er að fyrir hann fáist um 35 milljónir ísl. kr. Þá er þar upprunalegur Ford GT40 frá 1962 en hann er metinn á ca. 120 milljónir. Og enn skulu nefndir Ferrari 275 GTB/4 frá 1967 upp á 67 milljónir kr. og nokkrir aðrir Ferraribílar, einn Lamborghini Miura og nokkrir Porsche.

En það eru ekki bara rándýr tryllitæki sem Eccelstone er að losa sig við heldur líka bílar sem byggðir voru fyrir venjulegt fólk – bílar eins og Fiat 500L og 500D frá því um 1960, VW Bjalla frá 1978. Á Bjölluna eru settar um 1,2 milljónir, enda er hún óekin – hefur einungis keyrð 63 mílur.

Uppboðið fer fram þann 31. október í Battersea Park í London. Til að komast inn á uppboðið þarf að vera búinn að verða sér úti um uppboðsskrá. Hún kostar 50 pund að viðbættum póstsendingarkostnaði.