Besta söluár Tesla í Noregi frá upphafi

Bílasala í Noregi var sérlega góð á árinu 2021. Nýskráningar alls voru yfir 176 þúsund og hafa ekki verið fleiri síðan 1986 að því er fram kemur í tölum frá norsku samgöngustofunni.

Það ætti ekki að koma á óvart að rafbílar voru með 64,5 hlutdeild. Tesla fagnaði sínu besta söluári í Noregi frá upphafi. Model 3 seldist í alls 12.058 eintökum sem var þrjú þúsund fleiri bílar en RAV 4 frá Toyota sem lenti í öðru sæti. Heilt yfir var Tesla mest selda vörumerkið í Noregi með yfir 20.000 bíla.

Í umfjöllun um málið kemur fram að það voru líklega ekki mjög margir sem bjuggust við að Model 3 kæmi svo sterkt inn á markaðinn árið 2021.

Flest hafi gengið upp hjá Tesla, verðið lækkaði á Model 3 og náðist í alveg nýjan kaupendahóp. Auk þess tókst þeim að mæta eftirspurn á mun betri hátt en flestir samkeppnisaðilarnir. Þar sem nokkrir voru með langa biðlista á síðasta ári gat Tesla í mörgum tilfellum afhent bíla með skjótum hætti.

Því hafði verið spáð að VW ID.4 myndi ná fyrsta sætinu 2021 en þannig fór ekki. En það eru miklar líkur á því að ID.4 hefði gert það ef framboð á bílum hefði verið betra. Bíllinn var þriðji söluhæsti bíllinn í Noregi á síðasta ári.

 Tíu söluhæstu bílarnir í Noregi 2021:

1. Tesla Model 3 - 12.058

2. Toyota RAV4 - 8.928

3. VW ID.4 - 8.645

4. Tesla Model Y - 8.267

5. Volvo XC40 - 6.415

6. Ford Mustang Mach-E - 6.160

7. Audi e-tron - 5.745

8. Skoda Enyaq - 5.711

9. Nissan Leaf - 5.313

10. Polestar 2 - 4.103