Bíða þurfi með framkvæmdir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist þeirrar skoðunar að bíða þurfi með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða króna a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu úr samgöngusáttmálanum. Nýtt kostnaðarmat upp á 300 milljarða kr. í stað 160 milljarða kr. geri þetta að verkum. Þá telur hann nær lagi að horfa til skemmri tíma, t.a.m þriggja ára í senn.

Þessi orð lét ráðherann falla á fundi Varðar, fulltrúarráðs sjálfstæðisfélganna í Reykjavík í gær, og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Ráðherra sagði sagði ennfremur að öðruvísi verði engu komið í verk og tómt mál að tala um heildarpakka framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára eins og sakir standa.

„Í mínum huga má allt eins tala um tíu þriggja ára tímabil frekar en eitt fimmtán ára framkvæmdatímabil, sagði ráðherrann.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í byrjun september sagði Bjarni Benediktsson að hann vilji endurskoða Samgöngusáttmálann en allar fjárhagslegar forsendur skorti fyrir framkvæmdinni í dag. Áætlaður kostnaður við verk­efni Sam­göngusátt­mál­ans hef­ur nær tvö­fald­ast frá því sem gert var ráð fyr­ir og er nú 300 millj­arðar í stað þeirra 160 millj­arða sem upp­reiknuð kostnaðaráætl­un ger­ir ráð fyr­ir. Upp­haf­leg áætl­un var hins veg­ar upp á 120 millj­arða. Bjarni seg­ir þar að eft­ir því sem verk­efn­inu hafi undið fram hafi komið bet­ur í ljós að upp­haf­leg­ar áætlan­ir hafi verið stór­lega van­metn­ar og virðist það eiga við um nær alla þætti sátt­mál­ans.

Í greininni gagnrýnir fjármálaráðherra Samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkis. Hann segir meðal annars að kostnaður sé verulega vanáætlaður og tekur sem dæmi Arnarnesveg, sem átti að kosta 2,2 milljarða samkvæmt upprunalegum áætlunum. Verkið var boðið út fyrir 7,2 milljarða. Áætlaður heildarkostnaður við Samgöngusáttmálann miðað við vísitölu ársins 2023 eru 160 milljarðar. Búast má við að þessi kostnaður endi í 260 milljörðum - sé Keldnaland tekið með í reikninginn - en það er mikilvægur hluti af framlagi ríkisins til verkefnisins.