Bifhjólasamtök fordæma hraðakstur og kappakstur í almennri umferð
Vegna þeirra alvarlegu bifhjólaslysa og umferðalagabrota sem einstaka bifhjólamenn hafa verið staðnir að undanfarið var haldinn fundur í fyrradag með helstu forsvarmönnum bifhjólasamtaka landsins í húsakynnum Umferðarstofu. Auk fulltrúa bifhjólasamtakanna sátu fundinn fulltrúar Umferðarstofu og lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Á fundinum samþykktu forsvarsmenn bifhjólasamtakanna eftirfarandi ályktun:
Eftirtalin félög fordæma hraðakstur og kappakstur bifhjólamanna í almennri umferð. Félagsmenn bifhjólasamtakanna eru hvattir til að uppræta slíka iðju og sýna gott fordæmi í þeim efnum. Við hörmum það hvernig fjölmiðlaumfjallanir að undanförnu hafa bitnað á öllu bifhjólafólki sem flest er til fyrirmyndar. Jafnframt hvetja félögin til þess að sveitarfélög og aðrir hlutaðeigandi aðilar vinni að uppbyggingu viðeigandi akstursíþróttasvæða og áformum þar um sé hraðað eins og kostur er.
Undir þetta skrifa: Dúllarar, Ernir bifhjólaklúbbur Suðurnesja, Goldwing Road Riders, Harley Davidson Club Iceland, HSL, Iþróttafélagið öruggur hraði, Postular, Raftar Borgarbyggð, Ruddar, Road Race deild AÍH og Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins.