Bílabannsvæði í miðborgum Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Ecopass_logo.jpg

Yfirvöld allmargra evrópskra borga hafa bannað eða eru í þann mund að banna eða takmarkað verulega umferð svonefndra „ekki- umhverfismildra“ bíla á tilteknum svæðum – aðallega miðborgarsvæðum. Inn  á þessi svæði mega þeir einir bíla fara sem teljast umhverfismildir og Mílanóborg á Norður Ítalíu er ein þeirra. Þar hefur verið gefinn út svokallaður umhverfispassi eða Ecopass fyrir umhverfismildu bílana en auk þess settar frekari hindranir  á notkun þeirra innan miðborgarinnar. Bannsvæðið er svonefnt Cerchia dei Bastioni. Það er um 8,2 ferkílómetrar eða um 4,5 prósent af heildar flatarmáli borgarinnar.

Umhverfispassinn er sérstakur límmiði sem fæst á sölustöðvum almannasamgangnakerfis borgarinnar og á blaðasölustöðum og víðar. Hann er límdur á bílinn. Sérstökum lesurum eða myndavélum hefur verið komið fyrir á aðliggjandi götum að Cerchia dei Bastioni í Mílanó. Þeir greina hvort umhverfispassi er á bíl eða ekki og sé slíkur passi ekki límdur á bílinn fær eigandi hans sent sektarboð. http://www.fib.is/myndir/Ecopass-bannsv.jpg

Þeir bílar sem geta fengið umhverfispassa og mega þar með vera á ferðinni í miðborgum þessara „bannborga“ eru bílar sem gefa frá sér mjög lítið eða ekkert af útblástursefnum eins og CO2 og níturoxíðsamböndum.

Alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga FIA hefur undanfarið sent út fyrirspurnir til aðildarfélaganna um hvort eða í hve miklum mæli fyrirætlanir um akstursbann á bíla séu á döfinni í borgum Evrópu.

FÍB hefur svarað spurningum FIA um þetta efni og greint frá þeirri leið sem Reykjavíkurborg fór sl. vor að gefa umhverfismildum bílum eftir stöðugjöld í miðbæ Reykjavíkur. Skemmst er frá því að segja að sérfræðingar FIA telja Reykjavíkurleiðina mun jákvæðari en þá bannleið sem evrópskar borgir eru að feta um þessar mundir.