Bílablaðamenn velja Bíl ársins 2008

http://www.fib.is/myndir/Stalstyrid.jpg
Stálstýrið - viðurkenning fyrir bíl ársins á Íslandi.

32 NÝIR bílar eru í forvali Bandalags íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, um Bíl ársins 2008 að þessu sinni. Bíll ársins hlýtur Stálstýrið. Aðild að bandalaginu eiga blaðamenn sem fjalla um bíla og bílatengd málefni í íslenskum fjölmiðlum. Athygli vekur að af þessum 32 bílum falla 13 í flokkinn jeppar/jepplingar/pallbílar, sem segir meira en mörg orð um þá þróun sem orðið hefur úti á markaðnum í átt til meiri jeppavæðingar.

Þetta verður í fjórða sinn sem BÍBB stendur fyrir vali á bíl ársins á Íslandi. Í fyrsta sinn árið 2004 stóð Volvo S40 uppi sem sigurvegari, 2005 var það Suzuki Swift sem bar sigur úr býtum og Bíll ársins 2007 er Lexus IS.

Bílunum er skipt niður í fjóra flokka í forvali, þ.e. smábíla, millistærðarbíla, stærri fjölskyldubíla og lúxusbíla og jeppa/jepplinga/pallbíla. Þrír bílar komast upp úr forvali í hverjum flokki fyrir sig og verða gerðar ítarlegar prófanir á þeim af dómnefnd BÍBB. Að því loknu verður valinn einn sigurvegari í hverjum flokki þar sem litið verður til aksturseiginleika, notkunarsviðs, búnaðar, hönnunar og verðs. Þrír sterkir bakhjarlar gera bandalaginu kleift að standa að vali á bíl ársins en þeir eru Skeljungur, Tryggingamiðstöðin og Frumherji.

Tilkynnt verður um þá tólf bíla sem komast upp úr forvali 22. október nk. og 27. október, verður tilkynnt hver er Bíll ársins 2008 á Íslandi og jafnframt um sigurvegara í hverjum flokki fyrir sig. Nánar má lesa um valið á www.billarsins.is.

Í forvali eru eftirtaldir bílar:

Smábílar
Opel Corsa, Peugeot 207, Skoda Fabia, Skoda Roomster

Millstærðarbílar
Honda Civic Hybrid, Honda Civic Type R, Kia Carens, Kia cee’d, Subaru Impresa, Toyota Auris, Toyota Corolla, Volkswagen Golf GT Sport, Volkswagen Golf Variant, Volvo C30.

Stærri fjölskyldubílar og lúxusbílar
Honda Legend, Kia Carnival, Lexus LS460, Lexus LS600h, Mercedes-Benz C.

Jeppar/jepplingar/pallbílar
BMW X5, Ford Escape, Ford Edge, Honda CR-V, Isuzu D-Max, Land Rover Defender, Land Rover Freelander, Mitsubishi Outlander, Mitsubishi Pajero, Nissan Qashqai, Nissan X-Trail, Opel Antara, Skoda Octavia Scout