Bílabúð Benna hyggst áfrýja nýlegum dómi

Bílabúð Benna hyggst áfrýja nýlegum dómi, þar sem fyrirtækinu var gert að greiða kaupanda Porsche Cayenne bifreiðar tæpar 14 milljónir króna, auk dráttarvaxta, vegna riftunar á samningi um kaup á bílnum. Fram kemur á visir.is að lögmaður bílabúðarinnar segir skjólstæðing sinn ósammála niðurstöðunni „í öllum atriðum,“ þar að auki sé „óheppilegt“ að eigandinn skuli hafa tengsl við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem málið var dæmt.

Eins og fram hefur komið var bíllinn var keyptur þann 10. október 2016 og var kaupverðið 13.550.000 krónur. Þá var bíllinn seldur með tveggja ára ábyrgð. Málið á hendur Bílabúð Benna var höfðað 26. júní 2019, en fram að því hafði kaupandi bifreiðarinnar ítrekað kvartað undan vökvasöfnun í bílnum, sem meðal annars olli „megnri ólykt.“

Eftir þó nokkrar árangurslausar tilraunir til þess að finna lausn á vandanum fór kaupandi fram á riftun kaupsamnings vegna bifreiðarinnar. Þetta felldi Bílabúðin sig ekki við og taldi að um óverulegan galla á bifreiðinni væri að ræða. Kaupandi óskaði þá eftir ráðgefandi áliti kærunefndar lausafjár-og þjónustukaupa í málinu.

Nefndin féllst á riftun kaupsamnings og að Bílabúðinni bæri að endurgreiða kaupverð bifreiðarinnar með dráttarvöxtum, en einnig að kaupandanum bæri að greiða rúmlega 1,1 milljón króna fyrir afnot af bifreiðinni í rúmlega eitt og hálft ár. Bílabúðin felldi sig ekki við þá niðurstöðu og í kjölfarið höfðaði kaupandi bifreiðarinnar málið.