Bílabúð Benna þarf að greiða fjórtán milljónir vegna galla í Porsche-jeppa

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Bílabúð Benna þurfi að greiða Ólöfu Finnsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Dómstólasýslunnar, fjórtán milljónir vegna gallaðs Porsche-jeppa.

Málið fékk töluverða umfjöllun eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir í ágúst 2020. Í umfjöllun á visir.is kemur fram að töluvert var fjallað um málið á sínum tíma eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir, í ágúst árið 2020.

Niðurstaðan vakti nokkra athygli, ekki síst meðal lögfróðra sem tóku eftir því að eigandi bílsins var Ólöf Finnsdóttir. Hún var þá framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar sem annast sameiginlega stjórnsýslu allra dómstóla á Íslandi; Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstólanna átta. Þeirra á meðal er vitaskuld Héraðsdómur Reykjavíkur, sem kvað upp fyrrnefndan dóm Ólöfu í vil.

Þá er eiginmaður Ólafar Helgi Sigurðsson en hann er einn dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ætla mátti að það hafi verið ástæðan fyrir því að dómstjóri taldi alla dómara við dómstólinn vanhæfa til að dæma málið á sínum tíma þegar stefnan var þingfest. Dómstjóri fól því dómstólasýslunni að finna annan dómara.

Málið á hendur Bílabúð Benna var höfðað 26. júní 2019, en fram að því hafði kaupandi bifreiðarinnar ítrekað kvartað undan vökvasöfnun í bílnum, sem meðal annars olli „megnri ólykt.“

Eftir þó nokkrar árangurslausar tilraunir til þess að finna lausn á vandanum fór kaupandi fram á riftun kaupsamnings vegna bifreiðarinnar. Þetta felldi Bílabúðin sig ekki við og taldi að um óverulegan galla á bifreiðinni væri að ræða.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Ólöfu í vil. Bílabúð Benna áfrýjaði hins vegar dómi héraðsdóms. Lögmaður bílabúðarinnar sagði skjólstæðing sinn ósammála niðurstöðunni „í öllum atriðum“. Þar að auki hafi það verið „óheppilegt“ að eigandinn skuli hafa haft fyrrgreind tengsl við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem málið var dæmt.

Í niðurstöðu Landsréttar er vísað til þess að bílabúðin hafi sjálf ákveðið að meðhöndla vandræðin með bílinn sem galla. Bílabúðin hafi haft rétt á því að reyna að gera við gallann og fékk bílabúðin fleiri en tvö tækifæri til þess. Taldi Landsréttur því að Ólöfu hafi verið heimilt að rifta kaupunum.

Þarf Bílabúð Benna því að greiða Ólöfu 13,7 milljónir auk dráttarvaxta en þó að frádregnum 4,5 milljónum sem taki mið af afföllum vegna notkunar bílsins í tvö ár. Stefnda greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað.

Hér má sjá dóm/úrskurð í heild sinni.