Bílaeldsneytið lækkar í verði

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa2.jpg

FÍB hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni undanfarið að miðað við hátt gengi krónunnar gagnvart dollar hafi bílaeldsneytið verið óhóflega dýrt um langt skeið. Fullt þjónustuverð á bensíni hefur verið kr. 131,30 og kr. 130,20 og sjálfsafgreiðsluverð á hefðbundnum bensínstöðvum hefur verið á bensíni kr. 126,30 og á dísilolíu kr. 125,20.

Nú loks virðist sem olíufélögin séu að ná þessum skilaboðum því að í fyrradag og í gær reið Orkan á vaðið og lækkaði eldsneytisverðið og þegar þetta var ritað síðdegis 24. júlí, var bensínverðið hjá Orkunni kr. 120,60 og dísilolían kostaði 119,30 kr. lítrinn. Skeljungur fylgdi eftir í morgun og lækkaði þjónustuverðið niður í 129,80 á bensínlítranum og 130,20 á dísilolíulítranum. Sjálfsafgreiðsluverðið hjá Skeljungi er nú  kr. 124,80 á bensínlítrann og kr. 125,20 á dísilolíulítrann.

Verðið á sjálfsafgreiðslustöðvum Atlantsolíu, EGO og ÓB hefur einnig verið lækkað og er nú lítraverðið á bæði bensíni og dísilolíu 10 aurum yfir verði Orkunnar.
Þegar þessi orð voru rituð hafði N1 einnig lækkað verðið hjá sér, í það minnsta á þeirri bensínstöð sinni sem næst er höfuðstöðvum FÍB. Þar var sjálfsafgreiðsluverðið á bensíni kr. 122,30 og á dísilolíu kr. 121,0. Sem kunnugt er birtir N1 ekki eldsneytisverð á heimasíðu sinni eins og önnur olíufélög gera.