Bílaframleiðendur sakaðir um rangar eyðslutölur

Ítalskt neytendafélag hefur mælt eldsneytiseyðslu bíla samkvæmt þeirri forskrift sem framleiðendum ber að fara eftir, en hún nefnist NEDC ( New European Driving Cycle). Þetta er í fyrsta sinn sem neytendasamtök í Evrópu framkvæma slíka mælingu og niðurstaðan er afleit fyrir framleiðendur. Hún leiðir nefnilega í ljós að í eyðslumælingum framleiðenda er ýmsum brögðum beitt til að fá sem allra lægstar og hagfelldastar eyðslutölur sem oft á tíðum eru víðs fjarri raunveruleikanum. Þetta kemur fram í frétt frá FIA.

Mælingin sem hér um ræðir var unnin í rannsóknastofu óháðs aðila fyrir ítalska neytendafélagið Altroconsumo sem er eitt aðildarfélaga evrópsku neytendasamtakanna. Sjálf mælingin var gerð eftir NEDC forskriftinni. Bílarnir sem mældir voru fyrir Altroconsumo voru Fiat Panda 1.2 og Volkswagen Golf 1.6 TDI. Ef ekkert hafði verið átt við bílana áður en mælingin fór fram reyndist eyðslan vera 18-50% umfram uppgefnar eyðslutölur framleiðenda. Altroconsumo ætlar nú að aðstoða ítalska eigendur bílanna sem mældir voru í málaferlum gegn framleiðendum bílanna og krefja þá um endurgreiðslu þess umfram-eldsneytiskostnaðar sem eigendurnir hafa þurft að bera vegna rangra upplýsinga um eyðslu bílanna.   

Í umræddum eyðsluprófunum var eyðsla bílanna einnig mæld eftir að búið var að eiga við þá á ýmsan hátt, eins og að létta þá með því að taka úr þeim ýmislegt sem á að vera í þeim í almennri notkun, hækka verulega loftþrýsting í hjólbörðum og  líma límband yfir allar rifur, t.d. milli hurða og milli vélarhlífar og bretta og milli skottloks og bretta og yfir lofræstingarinntök o.fl. Við þetta og ýmsar fleiri aðgerðir tókst að lækka hina mældu eyðslu umtalsvert. Monique Goyens framkvæmdastjóri evrópsku neytendasamtakanna segir að allt of algengt sé að neytendur séu blekktir til að kaupa sér bíla sem síðan reynist verulega eyðslufrekari en auglýst var. „Þegar bíllinn svelgir í sig tveimur lítrum meira á hundraðið en auglýst var, er verið að láta kaupandann bera kostnað af ósönnum auglýsingum um hversu „grænn“ bíllinn sé. Þeir sem gera sér far um að velja sér nýjan bíl út frá því hve sparneytinn hann er, verðskulda ekki að þeir séu mataðir á röngum upplýsingum,“ segir hún og bætir við að Evrópusambandið hljóti að bregðast hart við nú þegar ljóst sé að forsendur NEDC mælinganna eru brostnar. Á þessu verði að taka á viðeigandi hátt.

http://fib.is/myndir/Bellibrogd.jpg