Bílaframleiðsla færist frá Kína til Evrópu
Volvo hefur ákveðið að flytja framleiðslu á minnstu rafbílategund sinni, EX30, frá Kína til Belgíu. Þetta styttir afhendingartíma innan Evrópu og kemur framleiðslunni undan tollum Evrópusambandsins á kínverska rafbíla. Bílar framleiddir í Evrópu eru í vaxandi mæli orðnir fyrsta val evrópskra neytenda. Veljum evrópskt höfðar til neytenda á tímum tollaátaka og óvissu í efnahagsmálum.
Volvo EX30 hefur fram að þessu verið framleiddur í Kína af Geely, sem er öflugur kínverskur bílaframleiðandi og stærsti hluthafi Volvo Cars. EX30 nýtur mestrar hylli í Evrópu og þess vegna stækkaði Volvo verksmiðjur sínar í Belgíu til að geta framleitt EX30 ásamt EX40 og EC40. Með hækkun tolla á kínverska rafbíla í Evrópu hefur þessi ákvörðun reynst heppileg.
Verksmiðjan í Gent í Belgíu getur framleitt allt að 1.500 EX30 bíla á viku, eða um einn á 67 sekúndna fresti. Nú þegar kemur meira en helmingur allra íhluta í EX30 frá Evrópu og það er stefna Volvo að auka hlutfallið enn frekar.
Flutningur framleiðslunnar til Belgíu mun einnig lækka verðið á EX30. Í Danmörku er áætlað grunnútgáfan af Volvo EX30 af árgerð 2026 lækki í verði um rúmlega 7.000 danskar krónur sem er yfir 130 þúsund íslenskar krónur.
Fleiri bílaframleiðendur eru að færa framleiðslu til Evrópu. Kínversk fyrirtæki eins og BYD, Chery og Leap Motor eru að hefja framleiðslu í Evrópu til að forðast tolla og styrkja ímynd sína á evrópska markaðnum. BMW hefur framleitt iX3 í Kína en er nú að færa framleiðslu á bílnum einnig til Ungverjalands, og Mini mun framleiða rafmagnsbíla aftur í Bretlandi frá 2026. Polestar dreifir framleiðslu sinni nú á milli Kóreu og Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir að Geely eigi stærstan hlut í Volvo Cars eru höfuðstöðvar fyrirtækisins, hönnun og tækniþróun og hluti framleiðslu enn þá í Gautaborg í Svíþjóð.
Allar fréttir má nálgast á fibfrettir.is