Bílaiðnaðurinn sóar verðmætum

Mörgum bílaáhugamanninum þótti það vond latína þegar Sergio Marchionne forstjóri Fiat/Chrysler sagði í maí sl. að bílaiðnaðurinn ætti að sameinast um þróun og framleiðslu drifbúnaðar í bíla og spara þannig gríðarlega fjármuni, sjálfum sér og neytendum til hagsbóta, í stað þess að hver framleiðandi væri að bauka við þetta í sínu horni með ærnum kostnaði og fyrirhöfn sem svo loksins komist að sömu eða svipuðum niðurstöðum miklu seinna en ella.

 http://fib.is/myndir/AndyPalmer.jpg
Andy Palmer.
 http://fib.is/myndir/BobLutz.jpg
Bob Lutz.

En nú hafa aðrir bílamenn sem njóta mikils álits í bílheimum tekið undir með Marchionne; þeirra á meðal eru Andy Palmer sem áður var hátt settur hjá Nissan en er nú forstjóri Aston Martin, og Bob Lutz sem lauk löngum farsælum ferli í bílaiðnaðinum í Bandaríkjunum og Evrópu sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri General Motors.

„Við getum ekki einu sinni komið okkur saman um einn og sama hleðslutengilinn fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla – hvers konar heimska er það? Hvaða væntingar getum við leyft okkur að hafa í samkeppninni við aðrar iðngreinar um fjármagn ef við getum ekki einu sinni sammælst um grunnatriði? Ég held satt að segja að bílaiðnaðinum sé fremur að fara aftur en fram,“ segir Andy Palmer.

Þegar Marchionne lagði fram yfirlýsingu sína í maí í vor studdi hann hana með rökum sem sett voru fram í 25 síðna PowerPoint skjali. Um þetta segir Bob Lutz: „Þetta var í fyrsta sinn sem málsmetandi maður úr greininni er sammála því að bílaiðnaðurinn eyðileggi fjármagn, því það gerir hann sannarlega.“

Lesa má nánar um málið í Automotive News.