Bílalakk sem sjálft lagar rispur

The image “http://www.fib.is/myndir/Nissan_zaroot.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nissan Zaroot - skyldi hann vera með „græðandi“ lakkinu?
Bílalakk sem sjálft lagar rispur. Það hljómar svo sannarlega eins og algert aprílgabb, en Auto Motor & Sport segir að tæknimenn hjá Nissan í Japan fullyrði að þeir hafi fundið upp bílalakk sem einmitt „græði“ rispur sem komið hafi í lakkhúðina. Auk þess sé þetta nýja lakk mun harðara en bílalakk hefur hingað til verið þannig að minni hætta sé á rispum.
Nýja lakkið er vatnsþynnanlegt glært hlífðarlakk og heitir Scratch Guard Coat. Það er sagt þorna og ná fullri hörku mjög fljótt. Vegna eiginleika þess geti bíleigendur búist við að viðgerðakostnaður við lakkskemmdir verði einungis fimmtungur þess sem áður hefur þekkst á bílum. Þetta glæra lakk leggist yfir bílinn og smjúgi ofan í rispur og sprungur í lakkinu sem fyrir er og endurskapi jafna litáferð og „græði“ rispur og sprungur. Þessi endursköpun taki frá einum sólarhring upp í viku eftir því hversu lofthiti er hár og rispurnar djúpar. Nýja lakkið er sagt muni koma fyrst á jeppum frá Nissan.