Bílalánin enn í biðstöðu

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði í gær í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni að náist ekki samkomulag við eignaleigufyrirtækin um lausn á skuldavanda þeirra sem tóku „erlend“ bílalán sem stökkbreyttust í kjölfar bankahrunsins, verði sett lög til að leysa vandann. Sá mikli fjöldi fólks sem á í alvarlegum erfiðleikum vegna þessara stökkbreyttu lána er orðinn mjög langeygur eftir útspili frá ríkisstjórninni og finnst biðtíminn orðinn ærið langur.

Félagsmálaráðherra kom á fund í höfuðstöðvar FÍB þann 24. mars sl. og kynnti framkvæmdastjóra og ritstjóra félagsins stöðu málsins. Þá var að vænta niðurstöðu innan fárra daga. Sú niðurstaða hefur ekki komið fram enn og í ofannefndum útvarpsþætti sagði ráðherrann að reynt hafi verið að ná sátt við bílalánafyrirtækin um málið.

Fréttavefur FÍB hefur ennfremur spurst fyrir um málið og fékk það svar í síðustu viku úr félagsmálaráðuneytinu að niðurstöðu væri að vænta fljótlega, jafnvel fyrir nýliðna helgi. Það gekk ekki eftir og sú sátt sem ráðherra hefur reynt að ná við lánafyrirtækin virtist heldur ekki í höfn á sunnudag því þá sagði hann í þættinum Sprengisandur m.a: „….en það hefur alltaf legið ljóst fyrir að okkar hálfu ef að það (sátt við lánafyrirtækin) næst ekki þá komum við með löggjöf sem gerir fólki kleift að komast út úr þessum myntkörfulánum." Hann sagði síðan að ráðuneytið væri nú komið með útfærða aðferðafræði og nú mætti segja að einungis strandi á vilja lánafyrirtækjanna til að spila með. „Þetta hlýtur að skýrast á næstu dögum. Ef að hann verður ekki fyrir hendi þá förum við þetta í löggjöf," sagði Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra í Sprengisandi á Bylgjunni sl. sunnudag.