Bílamarkaðurinn í Kína að rétta úr kútnum

Staðfestar tölur frá Kína sýna að bílamarkaðurinn þar er að rétta úr kútnum en niðursveifla í efnahagslífi og síðan kórónaveiran hefur leikið stærsta bílamarkað heims grátt síðustu misseri.

Í maímánuði var sala á bílum um 14,5% meiri en í sama mánuði í fyrra. Í apríl jókst salan um 4,4% og eru þetta fyrstu merkin um að betri tímar séu í nánd eftir tveggja ára niðursveiflu.

Samkvæmt tölum frá Samtökum bílaframleiðenda í Kína voru nýskráningar í maí um tvær milljónir ökutækja. Samtökin þakka þetta auknum stuðningi frá stjórnvöldum til bílaframleiðenda og að almenningur hefur trú á bættum hag á næstunni. Aftur á móti er ótti um að minni eftirspurn á erlendum mörkuðum haldist áfram vegna kórónaveirunnar.