Bilanatíðnin 2011

Þýsku bílarnir bila sjaldnast á vegum úti samkvæmt tölfræði vegaaðstoðar ADAC fyrir árið 2011 sem nú hefur verið birt. Í fyrsta sinn frá því byrjað var að vinna úr útkallstölum Gulu englanna, eins og vegaaðstoð ADAC er kölluð, þá eru þýskir bílar sigurvegarar í öllum þeim sex flokkum sem fólksbílunum er raðað í.

http://www.fib.is/myndir/Ford-Ka.jpg
Sá besti í flokki minni smábíla
er nýja kynslóð Ford Ka.
http://www.fib.is/myndir/Mini-Cooper-s.jpg
Stærri smábílar. Efstur er Mini.
http://www.fib.is/myndir/Mercedes-A-Class.jpg
Mercedes A-Klass. Bestur í flokki
minni meðalbíla.
http://www.fib.is/myndir/Audi-A5.jpg
Audi A5. Bestur í flokki meðal-
stórra bíla.
http://www.fib.is/myndir/Audi-A6.jpg
Audi A6. Bestur í flokki stórra
fólksbíla.
http://www.fib.is/myndir/VW-transporter.jpg
VW Transporter. Bestur í flokki
smárútubíla og sendibíla.

ADAC byrjaði árið 1978 á því að greina útköll vegaþjónustunnar eftir stærðarflokkum fólksbíla og eftir ástæðum útkalla. Tölfræðin er fyllilega marktæk því að til að ná inn í hana verður hver tegund og gerð að vera á skrá og í umferð í Þýskalandi í tilteknum lágmarksfjölda eintaka. Lengi vel röðuðu sér japanskir bílar í efstu sætin (þurftu sjaldnast á aðstoð að halda), en undanfarin ár hafa bílar framleiddir í Þýskalandi sótt mjög á. Almennt séð er ekki hægt að fullyrða að japönsku bílarnir hafi versnað heldur fremur staðið í stað meðan stöðugt öflugra gæðaeftirlit á öllum stigum þýskrar bílaframleiðslu og bætt hönnun hefur skilað stöðugt öruggari bílum í rekstri.

Audi A 5  er efstur í millistærðarflokki og þétt á hæla hans koma Audi Q 5 og BMW X 3. Í þessum flokki voru efstir árum saman japönsku bílarnir Toyota Avensis og Mazda 6 en það eru þeir ekki lengur.  Í flokki stóru fólksbílanna er Audi A 6 efstur og BMW 5 og Mercedes Benz E fylgja á eftir í öðru og þriðja sætinu.

Í minni milliflokki eru A og B Benzarnir í fyrsta og öðru sætinu og í því þriðja BMW 1. Athyglisvert er hvaða bílar raða sér í efstu sætin í smábílaflokknum. Þar er efstur hinn hálfþýski Mini (BMW) en í öðru sætinu er síðan (loksins) japanskur bíll; Mitsubishi Colt. Í því þriðja er Opel Meriva og í því fjórða hinn rúmenski Renault; Dacia Sandero, sem kemur reyndar verulega á óvart því að Dacia bílar hafa ekki náð hátt á lista hingað til. Í flokki minnstu bíla kemur nýjasta kynslóð Ford Ka, sem líka er mjög óvænt, því að Ford Ka (gamla gerðin) var mun neðar á lista lengstum  áður fyrr.

Lang algengustu ástæður þesss að kallað er eftir vegaaðstoð eru rafkerfisbilanir sem raktar verða til rafgeyma og rafala (straumleysi). Þessum vandamálum hefur stórfjölgað í áranna rás og er það rakið til þess að stöðugt eykst hverskonar búnaður og tæki í bílum sem gengur fyrir rafmagni og álag á geyma og rafala eykst að sama skapi. Fyrst komu afturrúðuhitarar, þá hitaelement í sæti. Síðar bættust við tölvur og annar rafeindabúnaður sem stjórnar gangi vélarinnar, vinnslu gírkassa og drifa og nú síðast Start-Stop kerfin sem drepa á vélinni á rauðu ljósi og ræsa hana aftur um leið og stigið er á kúplinguna, en síðasttnefndi búnaðurinn eykur verulega álag á geyma og rafala í bílum.

ADAC gaf út fyrstu bilanatölfræði sína árið 1978 sem fyrr er sagt og hefur birt þær á nánast hverju ári síðan. Evrópskir bílakaupendur styðjast verulega mikið við bilanatölfræði ADAC þegar þeir ákveða hvaða tegund og gerð bíls er keypt. Fyrstu niðurstöðurnar árið 1978 byggðust á rúmlega 230 þúsund útköllum en þessar sem hér birtast byggjast á rúmlega fjórum milljónum útkalla. Enginn bílanna er eldri en sex ára.